Fótbolti

Stór Kaka

Stórleikir dagsins voru kannski ekki eins stórir og vonir stóðu til, sérstaklega ekki leikur Frakka og Svisslendinga, sem varla var betri en þáttur af Neighbours. Brassarnir voru sterkir á móti Króatíu, svo sannarlega, en ekkert sérstakir samt, og Rónaldó er einsog stytta eftir Bertel Thorvaldsen í framlínunni. Hann myndi ekki hreyfast þótt það kæmi jarðskjálfti, sjö á Ricther. Króatarnir voru fínir, áttu fullt af hálffærum og hefðu átt skilið að jafna, en svona er þetta, meistaralið eiga inni meistaraheppni, spurning bara hvort hún dugar Brössunum alla leið.

Markið sem Kaka leikmaður AC Milan skoraði undir lok fyrri hálfleiks, fer í sögubækur, hreint ótrúlega yfirvegaður leikmaður, skotið hnitmiðað, í hornið fjær, einfalt, stílhreint, og hann einn besti maður liðsins, kannski sá eini sem stóð undir þessum geggjuðu kröfum sem gerðar eru til drengjanna í gulu peysunum.

Skemmtilegasta atvik dagsins, var að hitta Georg, Brasilíumann sem býr í Kópavoginum og hefur verið á Íslandi í átta ár. Við sendum myndatökumann heim til hans til að taka myndir í stuðningsmannapartíi Brasilíu í Hlíðarsmáranum. Það var ótrúlegt að sjá í stofunni fólk á öllum aldri, konur, karla, lítil börn, einfaldlega heimsmynd af HM, fótbolti er fyrir alla, og Georg sjálfur ótrúlega heillandi og skemmtilegur maður. Hann lofar að verða sérfræðingur í 442 svo lengi sem Brassarnir eru með, það eru forréttindi að fá þannig að sjá, að fótbolti er bara einn og einn leikur á Laugardalsvelli, heldur fjölskylduáhugamál, þjóðarréttur í Brasilíu. Sjáum hvað þeir fara langt, blaðamenn í Munchen spáðu Ítölum sigri, eða, eða, eða, þetta veit ekki nokkur maður, en það er einmitt það sem er svo heillandi við þetta blessaða HM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×