Innlent

Vilja vitnisburð um samskipti dómsstjóra og saksóknara

MYND/E.Ól

Verjendur tveggja sakborninga í Baugsmálinu krefjast þess að settur saksóknari í málinu og dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur beri vitni um samskipti sín áður en ákæra var gefin út að nýju. Þeir telja samskiptin óeðlileg og brjóta í bága við lög.

Enn einn angi Baugsmálsins var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Jakob Möller verjandi Tryggva Jónssonar fóru fram á að Helgi I. Jónsson dómstjóri héraðsdóms Reykjavíkur og Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari bæru vitni í málinu. Þar vísa þeir til bréfa þar sem fram kemur að settur saksóknari og dómstjóri hafi átt í samskiptum áður en ný ákæra var gefin út í málinu.

Í samtali þeirra hafi settur saksóknari bent á vanhæfi Péturs Guðgeirssonar héraðsdómara til að fara með málið en hann var formaður dómsins í þegar fyrri ákæra málsins fór fyrir héraðsdóm. Einn endurskoðandi ákæruvaldsins er skyldur maka Péturs og er sá endurskoðandi á vitnalista ákæruvaldsins sem gerir Pétur vanhæfan.

Settur saksóknari benti dómstjóra á þetta vanhæfi áður en hann skipaði dómara til þess að fara með málið. Þar sem þessi ábending var gerð án þess að verjendur væru viðstaddir telja verjendur að vinnureglur hafi verið brotnar. Eins telja verjendur endurskoðandann ekki nauðsynlegan fyrir málsmeðferð ákæruvaldsins frekar en í fyrra málinu en því er settur saksóknari ósammála. Hann telur líka ekki sjálfsagt að sami dómari fari með þetta mál og það fyrra enda eigi handahóf að ráða hvaða dómari fari með hvaða mál. Verjendur telja samskipti setts saksóknara og dómstjóra sérstaklega óviðeigandi þar sem settur saksóknari er fyrrum starfsmaður dómstólsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×