Fótbolti

Óvíst hvort Shevchenko leikur á HM

Óvíst er hvort Andriy Shevchenko, leikmaður Úkraínu og AC Milan, leikur á HM í Þýskalandi í næsta mánuði. Shevchenko kvað sjálfur upp úr með það að hann gæti ekki leikið á móti Costa Rica á sunnudag, en hann meiddist á hné í byrjun maí.

"Heilsa mín lagast með hverjum degi sem líður, en ég má ekki flýta mér of mikið," sagði Shevchenko. Hann er nú kominn til Milan á ný þar sem læknar liðsins meta möguleika hans á þátttöku í HM.

Shevchenko meiddist á hné í leik á móti Parma í Ítölsku deildinni en var engu að síður valinn í Úkraínska landsliðið. Vonir eru bundnar við að Shevchenko geti leikið í undankeppninni, en fjarvera hans yrði mikið áfall fyrir landsliðið, ekki síst þar sem félagi hans í landsliðinu, Sergiy Fedorov, leikmaður Dynamo Kyve getur ekki leikið með vegna meiðsla.

Forráðamenn Chelsea eru nú á höttunum eftir Shevchenko og hefur leikmaðurinn gefið það út hann gæti farið frá San Siro vegna fjölskylduástæðna. Ákvörðun um framtíð sína ætlar Shevchenko að gefa út 24. eða 25. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×