Fótbolti

HM442; á heimsmælikvarða

Í mínum huga er HM í fótbolta miklu meira en leikir og úrslit, litríkir fánar og fínn fótbolti, þetta mót er lífsreynsla sem fylgir manni ævilangt. Ég man einsog það hafi gerst í gær þegar Hollendingar byrjuðu úrslitaleikinn '74 á móti Vestur Þjóðverjum, eftir rétt rúma eina mínútu var Cruyff búinn að skora úr víti og heimamenn ekki ennþá búnir að koma við boltann í leiknum. Svipurinn á Beckenbauer keisara við þessa óvæntu byrjun Hollendinga var líktog hann hefði orðið gjaldþrota, þótt hans hátign hafi svo brosað breitt í leikslok með gulldolluna í báðum höndum.

Í HM442 þættinum á Sýn klukkan 21.00 að kvöldi hvers leikdags, reynum við Heimir Karlsson að fanga þetta andrúmsloft, tala um leikina og baksviðið, leikmennina og mörkin, sigrana, ósigrana, mistökin.

Við erum með tvo dómara á launaskrá til að taka af öll tvímæla um vafaatriði og viðmælendur útum allan heim til að tala um leikina. Ef það er eitthvað sem kemst næst því að spila fótbolta, þá er það að tala um fótbolta.

Og fyrst það er útilokað að íslenska landsliðið komist nokkurn tímann á HM, þá er markmiðið að vera með framúrskarandi HM442 fótboltaþátt, á heimsmælikvarða, ekkert minna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×