Innlent

Aldrei meiri hagnaður

Glitnir hefur aldrei skilað meiri hagnaði á einum ársfjórðungi en hann gerði fyrstu þrjá mánuði ársins. Á sama tíma gerðist það í fyrsta sinn í sögu bankans að meira en helmingur hagnaðar er frá útlöndum.

Hagnaður Glitnis fyrstu þrjá mánuði ársins var þrefalt meiri en á sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn nam alls níu komma einum milljarði króna en var þrír milljarðar fyrir ári síðan. Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, er að vonum sáttur við árangurinn. Hann segir sérstakt að í fyrsta sinn komi meira en helmingur hagnaðar af starfsemi í útlöndum, það er nú um sextíu prósent. Vaxtarmöguleikarnir eru þó að stórum hluta í útlöndum en þó eru þeir líka hér innanlands, svo sem í nýlegum kaupum á Kreditkortum og eins segir hann brýnt að breyta íbúðarlánamarkaðnum.

Þrátt fyrir miklar sviptingar í íslensku efnahagslífi er þeirra ekki farið að gæta í afkomu bankans. Bjarni gerir ráð fyrir að þeirra verði vart í talsverðum mæli á næsta ári. Hann segir að vanskil einstaklinga séu enn ekki farin að aukast og segir að íslenskir neytendur séu mun skynsamari en oft mætti ráða af umræðu um þá, hann treystir því þess vegna að flestir standi vel í fæturna þegar dregur saman í efnahagslífinu, þó megi gera ráð fyrir að það verði erfitt fyrir einhverja þegar stýrivextir eru orðnir mjög háir og verðlag hækkar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×