Til hamingju Ísland í flutningi Silvíu Nætur verður framlag Íslendinga í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin verður í Aþenu í maí.
Það kom fáum á óvart að lagið vann yfirburðarsigur í forkeppni söngvakeppninnar sem haldin var í gær. Lagið hlaut meira en sjötíu þúsund atkvæði af þeim rúmlega hundraðþúsund atkvæðum sem bárust.
Mikill styrr stóð um lagið um tíma en nokkrir höfundar sem áttu lag í keppninni voru óhressir með að það fengi að taka þátt þar sem lagið lak út á netið áður en það var frumflutt í keppninni.
Höfundur lagsins er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og textann sömdu Ágústa Eva Erlendsdóttir og Gaukur Úlfarsson. Í öðru sæti var lagið Þér við hlið sem Regína Ósk flutti og í því þriðja var Það sem verður í flutningi Friðriks Ómars.

