Farþegavél á vegum lággjaldaflugfélagsins Excel, sem er í eigu Avion Group, var beint á flugvöllinn í Brindisi á Suður-Ítalíu í dag vegna sprengjuhótunar. Miði fannst í vélinni þar sem sagði að sprengju væri að finna um borð. Vélin, sem er af gerðinni Boeing 767, var á leið frá Gatwick-flugvelli á Englandi til Egyptalands.
Ítalski flugherinn sendi F-16 orrustuþotu sem mætti vélinni og fylgdi henni að flugvellinum í borginni. Greiðlega gekk að flytja alla farþega frá borði eftir að flugvélin lenti. Engin sprengja hefur fundist í vélinni og má því ætla að farþegar geti haldið ferð sinni áfram fljótlega.