Fótbolti

Fyrirsagnir og fyrrverandi stjörnur

Ég held að ein besta fyrirsögn í heimi hafi komið í heimsblöðunum í dag, Eiður til Barcelona, komin sjálfsagt hátt í tuttugu ár síðan ég sat niðri við hliðarlínu á Nou Camp vellinum og tók ljósmyndir af Framliðinu í leik, þá var ég hættur að spila sjálfur, þá var ég ungur.

Þýsku blöðin strax farin að hugsa um sextán liða úrslit, þrátt fyrir erfiðan leik í gær, sigur á lokamínútunni einsog venjulega, ,,Gengur betur næst: Er þetta allt og sumt?'' Jafnvel ein og ein í anda þýsku þunglyndishreyfingarinnar Breitners og co: ,,Niðurlæging!''

Að sama skapi eru breskir blaðamenn farnir að máta tvenns konar fyrirsagnir fyrir kvöldið: ,,Ekki meir, Sven Göran!'' eða jafnvel: ,,We are the champions!'' Veit það ekki, veit eiginlega ekki við hverju á að búast í leik enskra og Trinidad, eitt núll er standard situasjón, en þeir gætu líka tekið uppá því að vinna 4-0, eða tapa 2-1, enska liðið er með eina bestu miðju í heimi, Terry flottur líka, en restin, veit það ekki heldur, kannski Þróttur Reykjavík gæti fengið eitthvað af því liði á lánssamning, eða Fram sem leikur líka í neðri deild Íslandsmótsins.

Úkraínski senterinn sem er að fara til Lundúna eftir keppnina var jafnvel lélegri en Ronaldo blessaður, þegar varnarmenn eru farnir að kvarta yfir því hvað brasilíska súperstjarnan er löt, þá er kominn tími til að fara frekar í brasilíska landsliðið í bridds.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×