Fótbolti

Eros Ramazzotti á HM

HM er á hreinu, þótt stuttur tími sé í fyrsta leik: Leigubílstjóri sem ók mér, Guðjóni Guðmundssyni og Birni Sigurðssyni, alla leið frá Friedrichshafen til Munchen, er með kenningu: Kosta Ríka liðið er að blöffa, þeir hafa tapað og tapað æfingaleikjum, viljandi. Þeir eru að blekkja heimsveldið, koma svo mjög sterkir í opnunarleikinn og gera rósir. Fín kenning.

Fleiri rökstuttar kenningar frá Bobby, sem er reyndar Tyrki, og hefur verið búsettur hér um slóðir í hartnær tuttugu ár: ,,Hollendingar eru vonlausir, en Íran, þeir eru flottir, sá þá í æfingaleik hér í Friedrichshafen í gær, gott lið, ég er klár á því. Gætu jafnvel unnið.''

Ég veit eki með það, en ég trúi þessum leigubílstjóra frekar en Die Welt, Suddeutsche Zeitung eða öðru af þeim 350 dagblöðum sem gefin eru út í Þýskalandi, og öll hafa sína sérskoðun á því hvað er í lagi eða ólagi hjá þýska landsliðinu, eða á HM yfirleitt. Þegar komið er í miðborg Munchenar þá kemur á óvart hvað stemningin er dauf, reyndar er niðamyrkur, en samt, er ekki tvíburabróðir eða náskyldur frændi Oliver Kahn á hverju götuhorni að selja leikskrár?

Bobby leigubílstjóri er reyndar afar vonsvikinn yfir því að Tyrkir skuli ekki vera með á HM í Þýskalandi; ,,þeir eru klárlega með eitt besta unlingalið í heimi, en meistaraflokkurinn er frekar slakur'' segir hann á 170 km hraða í næturmyrkrinnu, á leið á áfangastað, Munchen. Hann kallar ökumennina sem lulla á 140 á vinstri akrein idjóta. Hér eru engar hraðatakmarkanir og vonandi að þannig verði sóknarleikurinn á HM, segi ég. ,,Já, því ekki það, því ekki það'' svarar hann ákeðið. Maður sem hefur keyrt sjálfan Eros Ramazzotti frá flugvellinum í Friedrichshafen uppá næsta hótel, veit hvað hann syngur. Slíkur maður kann gott að meta. Fótbolti er ástríða, ekkert minna, og nú er að hlýna í veðri í Bæjaralandi og nágrenni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×