Lífið

Magni allt í öllu

Magni Ásgeirsson var allt í öllu í síðasta tónleikaþætti Rock Star: Supernova en hann söng lögin Hush með Deep Purple og frumsamda lagið When the Time Comes.
Magni Ásgeirsson var allt í öllu í síðasta tónleikaþætti Rock Star: Supernova en hann söng lögin Hush með Deep Purple og frumsamda lagið When the Time Comes.
Síðustu tónleikarnir í raunveruleikaþættinum Rock Star: Supernova verða í kvöld en þeir voru teknir upp á sunnudaginn. Magni var síðastur í röðinni að þessu sinni en hann flutti lögin Hush með Deep Purple og frumsamda lagið When the Time Comes. Magna tókst vel upp með flutning sinn og eru netverjar flestir mjög ánægðir með hann.

Hljómsveitameðlimir Supernova voru jafnframt mjög sáttir við Magna nema hvað að Tommy Lee fannst lagið óeftirminnilegt en fékk litlar undirtektir hjá áhorfendum í sal sem bauluðu á þessi ummæli trommuleikarans.

„Reynið þá að syngja hluta af laginu," sagði Tommy við salinn sem gat það ekki. Gilby Clarke hrósaði Magna og sagði hann hafa átt frábært sumar.

„Mér fannst flutningur þinn á Hush mjög góður og söngurinn alveg frábær en það vantaði herslumuninn í frumsamda laginu." Jason var ekki á sama máli og taldi að þrátt fyrir að lag Magna hefði ekki verið jafn frumlegt og hinna væri einhver harka í því.

Segja má að Magni hafi verið allt í öllu í þessum lokaþætti en hann lék á gítar í frumsömdu lagi Toby, Throw It Away, þar sem hann fór að sögn netverja á kostum og söng undir hjá Dilönu í laginu Roxanne. Atkvæðin verða kunngjörð í lokauppgjörinu á miðvikudagskvöldið og þá skýrist hvort Magni verður söngvari rokkhljómsveitarinnar Supernova.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×