Lífið

Sofandi hafmeyjar

anja stella ólafsdóttIr
Sýnir á Hverfisgötu 34.
anja stella ólafsdóttIr Sýnir á Hverfisgötu 34.

Á Menningarnótt opnuðu Anja Stella Ólafsdóttir og Sirrý Hjaltested samsýningu á Hverfisgötu 34. Þetta er fyrsta sýning þeirra beggja en þær stöllur kynntust á leikskóla en eru nú báðar í listnámi.

Anja Stella sýnir málverk á sýningunni, en eitt þeirra er gert úr níu smærri málverkum sem mynda eina heild en verkið er hluti af lokaverkefni hennar á myndlistarbraut FB. "Ég er að vinna með hafið – hafið og fólkið," segir hún en hverfulleikinn og ógnin í hafinu er henni jafn hugleikinn og fegurð þess. "Þar getur allt horfið á einu augabragði."

Fyrirsæturnar í einu verkanna eru henni einnig hugstæðar en dætur hennar tvær birtast þar í líki sofandi hafmeyja. "Þær voru svo lengi að sofna og ég var vön að sitja hjá þeim með skissubókina fyrir skólann, svo endaði með því að ég var farin að skissa þær," segir Anja og hlær.

Sirrý Hjaltested lærði keramik í Noregi en Anja útskýrir að sýningar þeirra kallist skemmtilega á. "Hún er að vinna með allskyns sjávarform, ígulker og sjávardýr."

Sýningin er á Hverfisgötu 34, þar sem áður voru seldir rammar og speglar en hún stendur til 2. september. Sýningin er opin milli 15-18 alla daga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.