Lífið

Magni slær öllum við í Rock Star

Framar öllum vonum
Væntanlega hafa ekki margir gert sér vonir um að Magni yrði langlífur í Rockstar-þáttunum en hann hefur vaxið með hverri raun.
Framar öllum vonum Væntanlega hafa ekki margir gert sér vonir um að Magni yrði langlífur í Rockstar-þáttunum en hann hefur vaxið með hverri raun.
Magni Ásgeirsson hefur heldur betur slegið í gegn í sjónvarpsþættinum Rock Star: Super­nova sem sýndir eru á Skjá einum í beinni útsendingu. Fáir hafa sennilega búist við því að sveitastrákurinn frá Borgarfirði eystri myndi ná langt en Magni hefur hins vegar skellt skollaeyrum við öllum gagnrýnisröddum og neikvæðni og verið þjóð sinni til sóma á sviðinu í Los Angeles.

Aðdáendur þáttarins halda úti heimasíðunni www.supernova­fans.com þar sem gestum býðst að taka þátt í könnun um hver þyki líklegastur til að hreppa hnossið og verða söngvari rokksveitarinnar Super­nova sem er skipuð þeim Tommy Lee úr Mötley Crüe, Jason Newsted úr Metallicu og Gilby Clarke úr Guns N‘ Roses. Magni hefur undanfarnar vikur vermt þriðja og annað sætið en Lukas Rossi hefur yfirleitt borið höfuð og herðar yfir andstæðinga sína. Í gær varð hins vegar gjörbreyting á - Magni var kominn í lang­efsta sætið með rúmlega sjötíu prósent atkvæða.

Líklega hefur flutningur Magna á Plush eftir Stone Temple Pilots ráðið mestu um þann atkvæðafjölda sem hann hlýtur í þessari viku en hljómsveitameðlimirnir í Supernova héldu vart vatni yfir frammistöðu íslenska söngvarans og var hann beðinn um að endurtaka flutninginn í atkvæðaþættinum sem sýndur var aðfaranótt fimmtudags. Sú sem kemur næst Magna er Dilana Robichaux með rúm sextán prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×