Innlent

Dagurinn endurskilgreindur

Flugumferðarstjórn Flugumferðarstjórar vilja skilgreina daginn á annan hátt en yfirvöld.
Flugumferðarstjórn Flugumferðarstjórar vilja skilgreina daginn á annan hátt en yfirvöld.

Flugumferðarstjórar eru mjög óánægðir með nýlegan úrskurð Félagsdóms, þar sem þeir segja að ný skilgreining orðsins dagur líti dagsins ljós.

Félag flugumferðarstjóra fór í mál við ríkið eftir að Flugumferðarstjórn breytti vaktaskipulagi starfsmanna Flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík án samráðs við starfsmenn og, að sögn félagsins, þvert á ákvæði í kjarasamningum sem sagði að vaktavinnustarfsmenn ættu rétt á tveimur samfelldum frídögum í hverri viku.

Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að samfelldur frídagur gæti hafist hvenær sem er sólarhringsins, sem félagið segir aðra túlkun á hugtakinu en var við lýði þegar samningarnir voru gerðir.

Þetta er fáránleg túlkun á hugtakinu, segir Loftur Jóhannsson, formaður Félags flugumferðarstjóra. Þetta þýðir að tveir samfelldir frídagar geta verið hvaða 48 klukkutímar sem er. Ef þessir 48 tímar byrja til dæmis á hádegi á mánudegi og eru búnir á hádegi á miðvikudegi, þá fá menn bara einn dag í frí, sem er þriðjudagur. Þetta var auðvitað ekki hugsunin þegar samið var, heldur að menn fengju tvo heila almanaksdaga í frí, frá miðnætti til miðnættis.

Þess má geta að Íslensk orðabók skilgreinir hugtakið dagur annars vegar sem tímann frá sólarupprás til sólseturs og hins vegar svona: Sólarhringur, almanaksdagur, (reiknaður frá miðnætti til miðnættis).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×