Fótbolti

Króatar þurfa sigur gegn Áströlum

Ástralía mætir Króötum í kvöld í leik sem ætti að skera úr um hvort liðið fylgir Brasilíumönnum upp úr F-riðli í 16 liða úrslitin. Japanar eiga líka fræðilegan möguleika á að komast í 16 liða úrslitin en til að svo verði þurfa þeir að sigra Brassana stórt.

Mikil tengsl eru á milli Króatíu og Ástralíu því leikmenn í báðum liðum eiga ættir sínar að rekja til lands andstæðinganna. Hjá Áströlum eru það leikmenn eins og Mark Viduka, Toni Popovich, Zeljko Kalac og Josip Skoko sem eiga ættir að rekja til Króatíu eða nágrennis og hjá Króötum eru Josip Simunic, Joey Didulica og Anthony Seric allir fæddir og uppaldir í Ástralíu.

Króatar hafa verið óheppnir til þessa í keppninni eftir að hafa staðið sig frábærlega gegn Brössunum í fyrsta leik og gert svo jafntefli við Japana 0-0. Þeir hafa þó einungis fengið eitt mark á sig í leikjunum tveimur en vandamálið hefur verið að koma boltanum í net andstæðinganna.

Kletturinn í vörn Króata Robert Kovac verður í banni í kvöld og er það ekki góðs viti fyrir Króatíu. Harry Kewell slapp við bann eftir að hafa hreytt einhverjum athugasemdum í dómara leiksins gegn Brasilíu og verður því með í kvöld og ætti það að hleypa meira lífi í sóknarleik Ástralanna, Toni Popovic verður þó ekki í liðinu vegna meiðsla í kálfa. Ástralirnir þurfa þó einungis jafntefli til að komast áfram og gætu því dottið í þá gryfju að reyna að verjast og halda út með jafntefli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×