Innlent

Úrvalsvísitalan á hraðri uppleið

MYND/Stefán

Úrvalsvísitalan er á hraðri uppleið í Kauphöllinni og vísitalan hefur hækkað um hátt í fimmtíu prósent í ár, meira en nokkru sinni fyrr. Hún hefur aldrei verið jafn há og engin lækkun er fyrirsjáanleg, að sögn forstjóra Kauphallarinnar.

Vísitalan fór í fimm þúsund stig í gær, sem er hið langhæsta til þessa. KB banki hækkaði til dæmis um hátt í 40 milljarða í fyrradag, með 8 prósenta hækkun, og þau örfáu félög, sem eitthvað hafa lækkað, hafa lækkað mjög lítið. Ef litið er tíu ár aftur í tímann þá hafa tíu stærstu fyrirtækin af þeim sem mynda vísitöluna tífaldað tekjur sínar og síðast en ekki síst, tífaldað ágóða sinn líka.

Þegar nánar er skoðað eru það útrásarfyrirtækin sem knýja hækkunina áfram og er nú svo komið að þrjár af hverjum fjórum krónum sem útrásarfyrirtækin í Kauphöllinni afla, er aflað í útlöndum. EF ferið er aðeins þrjú ár aftur í tímann og tekið sem dæmi fyrirtæki, sem þá var metið á 100 milljónir króna, þá er það núna metið á um það bil 280 milljónir, sem er um 180 prósenta hækkun á aðeins þremur árum. Í ljósi alls þessa vaknar sú spurning hvort þetta sé ekki bóla sem muni springa innan tíðar eins og gerst hefur af og til erlendis og gerðist hér árið 2000.

Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallalrinnar segir hins vegar að tölur úr rekstri fyrirtækjanna gefi engar vísbendingar um slíkt, engin augljós rök bendi í þá átt. Eins og áður sagði er þessi vöxtur knúinn áfram af útrásarfyrirtækjum en ef litið er til fyrirtækja á innlendum vettvangi, eins og sjávarútvegsfyrirtækja og matvælafyrirtækja, þá hafa þau sáralítið hækkað á þessu blómaskeiði útrásarfyrirtækjanna, sem ótvírætt bendir til þess að vaxtarmöugleikar íslenskra fyrirtækja séu í útlöndum, en ekki á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×