Erlent

Búið að ná öllum líkum

Búið er að ná öllum líkum úr neðanjarðarlestunum sem sprengdar voru í hryðjuverkaárásunum í Lundúnum síðastliðinn fimmtudag. Öryggisgæsla hefur enn verið hert í borginni þar sem mennirnir sem frömdu hryðjuverkin í síðustu viku eru enn á lífi og eru taldir undirbúa aðra árás. Breska dagblaðið Times heldur því fram í dag að hryðjuverkamennirnir séu að leggja á ráðin um frekari árásir á Lundúnir. Þar segir að allt tiltækt lið lögreglu og öryggissveita sé nú í viðbúnaðarstöðu auk þess sem hermenn hafi verið kallaðir til aðstoðar. Fjörutíu og níu manns létu lífið í sprengjuárásunum á fimmtudag og meira en sjö hundruð særðust, þar af tugir alvarlega. Talið er að tekist hafi að ná öllum líkum úr neðanjarðarlestunum sem sprengdar voru í árásinni en leitarmenn eru þó enn við störf við lest sem sprengd var á milli King´s Cross stöðvarinnar og Russel Square. Rannsókn á árásunum beinist nú að myndum frá King´s Cross lestarstöðinni þar sem talið er að hryðjuverkamennirnir hafi ráðið ráðum sínum fyrir árásirnar. Lögreglu hefur borist um sautján hundruð vísbendingar frá almenningi en að svo stöddu hefur enginn hryðjuverkamaður verið handtekinn. Lífið í Lundúnum virtist komið í fyrra horf snemma í morgun þegar flestir borgarbúar mættu til vinnu í fyrsta sinn eftir hryðjuverkin. Margir hafa komið við á King´s Cross stöðinni og lagt blóm til minningar um þá sem létust í árásinni í síðustu viku en flestir borgarbúar leggja áherslu á að láta ekki voðaverkin trufla daglegt líf þeirra.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×