Innlent

Hæfi Halldórs rannsakað

Ríkisendurskoðun ætlar að kanna hvort forsætisráðherra hafa verið vanhæfur til að fjalla um sölu ríkisbankanna á sínum tíma vegna tengsla við Skinney Þinganes og fyrirtæki S-hópsins sem keypti Búnaðarbankann. Forsætisráðherrann neitaði viðtali en segist fagna rannsókninni. Ríkisendurskoðandi upplýsti í gær að S-hópurinn hefði ekki gefið réttar upplýsingar um eignarhald á félaginu Hesteyri þegar viðræður um kaup á Búnaðarbankanum stóðu sem hæst. Fram kom í bréfi til einkavæðinganefndar að Kaupfélag Skagfirðinga ætti félagið óskipt, hálfum mánuði eftir að Skinney Þinganes eignaðist þar helmings hlut. Hesteyri hagnaðist svo um sjö hundruð milljónir á viðskiptum með hluti í Keri og Vís, daginn áður en einkavæðinganefnd tilkynnti að samkomulag hefði náðst við S-hópinn um kaupin á Búnaðarbankanum. Í dag ákvað ríkisendurskoðandi svo að kanna hæfi ráðherrans í málinu og kynna fjárlaganefnd niðurstöðuna. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, segir að forsætisráðherra þurfi samt að gera hreint fyrir sínum dyrum. Það dugi ekki að Ríkisendurskoðun athugi málið ein og sér. Formlega vanhæfið þurfi að kanna. Helgi segir Halldór líka þurfa að svara því pólitískt hvers vegna hann sagði sig ekki frá málinu því svo virðist vera að fyrirtæki nátengt honum og venslamönnum hans hafi í viðskiptum í tengslum við söluna hagnast verulega, sérstaklega í ljósi þess að illa var haldið á hagsmunum almennings við söluna og þau verðmæti, sem rétt og eðlilegt hefði verið fyrir skattgreiðendur að fá, fengust ekki.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×