Innlent

Óljóst um ráðningu fréttastjóra

Óljóst er hvernig staðið verður að ráðningu nýs fréttastjóra Útvarps eftir að Auðun Georg Ólafsson ákvað að taka ekki starfinu. Auðun mætti til síns fyrsta vinnudags í gærmorgun og fékk heldur óblíðar móttökur. Dagurinn byrjaði illa, það var ekki tekið á móti honum við innganginn og framkvæmdastjóri Sjónvarps skellti dyrum á hann þegar hann kom til fundar á skrifstofu útvarpsstjóra. Svo var tilkynnt að Bogi Ágústsson myndi taka við ritstjórnarlegri ábyrgð fyrir Auðun fyrst um sinn og þannig yrði Auðun í eins konar starfsþjálfun í upphafi ferils síns sem fréttastjóri. Eftir fund með fréttamönnum fjölmenntu þeir á Alþingi þar sem þeir lýstu því yfir að Auðun Georg hefði hótað sér með því að segjast ætla að gera vel við þá sem vildu vera áfram en skilja þá sem treystu sér ekki til að starfa með honum. Þá fór Auðun Georg í viðtal við fréttamann Útvarpsins og varð tvísaga um það hvort hann hefði fundað með formanni útvarpsráðs deginum áður. Rétt fyrir klukkan sex lýsti Auðun Georg því yfir að hann myndi ekki taka starfið. Elín Hirst mun að líkindum fara með ritstjórnarlega ábyrgð á fréttastofu Útvarps á næstunni en Bogi Ágústsson yfirmaður fréttasviðs RÚV var fluttur á sjúkrahús í gær með hjartsláttartruflanir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×