Innlent

Lögreglumaður dæmdur í Héraðsdómi

Lögreglumaður var í dag dæmdur til að greiða hátt í hálfa milljón króna í sektir og skaðabætur fyrir að hafa keyrt í veg fyrir ökumann bifhjóls á Ægisíðu í fyrravor. Aðfaranótt 31. maí í fyrra reyndi lögreglumaðurinn að stöðva för ökumanns bifhjóls á Ægisíðunni en eltingaleikur lögreglu hafði borist vestur á Seltjarnarnes og til baka. Lögreglumaðurinn bar að ökumaður bifhjólsins hefði verið á miklum hraða og því mikilvægt fyrir umferðaröryggi í borginni að stöðva för hans. Hann keyrði því í veg fyrir hjólið en segist hafa skilið nógu mikið bil eftir fyrir hjólið að komast fram hjá. Ökumaður hjólsins segir bílnum hins vegar hafa verið sveigt skyndilega í veg fyrir hann og hjólið hafi því skollið á framenda bílsins og hann sjálfur kastast í götuna og hlotið af nokkur meiðsl. Dómurinn segir lögreglumanninn hafa sýnt stórfellt gáleysi með því að sveigja skyndilega fyrir hjólið og þannig stefnt ökumanni þess í augljósa og verulega hættu. Hann dæmist því til að greiða 200.000 króna sekt innan fjögurra vikna, hann þarf að greiða ökumanni bifhjólsins 195.000 krónur með vöxtum og verðtryggingu, auk alls sakarkostnaðar. Kristján Thorlacius, fulltrúi lögmanns lögreglumannsins, segir niðurstöðuna algjörlega óviðunandi og að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar. Mál ríkissaksóknara gegn ökumanni bifhjólsins er enn í meðferð Héraðsdóms en hann var ákærður fyrir ofsaakstur fyrr um nóttina.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×