Innlent

Formannskjör ekki útilokað

p>Kristinn H. Gunnarsson útilokar ekki að hann bjóði sig fram til eins af forystuembættum Framsóknarflokksins á flokksþingi sem hefst í dag. "Ég útiloka ekkert í þeim efnum og ligg ekkert á þeim áformum mínum að vinna að auknum áhrifum mínum innan flokksins," sagði Kristinn. Búist er við átökum um nokkur stór málefni á þinginu, þar á meðal Evrópumál, og hafa drög að ályktunum flokksþingsins þegar valdið titringi innan flokksins. Í þeim kom fram að stefna ætti að því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á kjörtímabilinu. Árni Magnússon félagsmálaráðherra og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sögðu í samtali við Fréttablaðið í gær að þetta atriði hefði komið þeim á óvart. "Framsóknarflokkurinn hefur farið mjög rækilega í gegnum Evrópumálin og sett fram stefnu sína með skýrum hætti. Við teljum að áfram eigi að byggja á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og ég tel ekki tímabært að stíga nein þau skref sem þarna er lýst, enda er það ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar," sagði Árni. "Þetta hefur vissulega valdið titringi. Verði þetta samþykkt á þinginu yrði það breyting á stefnu flokksins," sagði Guðni. Auk Evrópumálanna er búist við því að tekist verði á um ýmis önnur mál, svo sem hvort selja eigi grunnnetið með Símanum, hugsanlega einkavæðingu Landsvirkjunar og þær hækkanir sem orðið hafa á orkuverði. Kristinn sagðist auk þessa eiga von á því að rætt verði um stjórnarsamstarfið, slæma stöðu Framsóknarflokksins, hægri sveiflu flokksins og starfshætti. "Teknar hafa verið ákvarðanir í mikilvægum málum án þess að fram fari nauðsynleg umræða innan flokksins og stundum þingflokksins og get ég nefnt fjölmiðlamálið, Íraksmálið og Landsvirkjun sem dæmi um það," sagði hann. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra vildi ekki tjá sig um málefni flokksþingsins í gær.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×