Innlent

Heilbrigðisstéttir megi auglýsa

Lögð hefur verið fram tillaga á Alþingi um að auglýsingar lækna, tannlækna og annarra heilbrigðisstétta, sem og auglýsingar heilbrigðisstofnana, verði heimilaðar. Flutningsmaður tillögunnar er Ágúst Ólafur Ágústsson, alþingismaður Samfylkingarinnar. Nú er flestum heilbrigðisstéttum og –stofnunum óheimilt að auglýsa starfsemi sína. Ágúst Ólafur segir þannig komið í veg fyrir að almenningur geti fengið nauðsynlegar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og sjúklingar verði því að treysta á umtal, ímynd og orðróm þegar þeir velja sér heilbrigðisþjónustu. „Almenningur á oft fjölbreytilega valkosti milli lækna og heilbrigðisstofnana sem keppa um þjónustu og aðstöðu fyrir almenning þrátt fyrir að í flestum tilvikum sé hið opinbera sem greiðir fyrir þjónustuna. Enn ríkari ástæður eru fyrir því að afnema auglýsingabann hjá tannlæknum þar sem þeir hafa frjálsa gjaldskrá,“ segir í tilkynningu frá þingmanninum. Á sínum tíma var auglýsingabann talið nauðsynlegt vegna fámennis í landinu og kunningsskapar og talið halda uppi aga innan stéttarinnar að sögn Ágústs. Hann telur að þessi rök eigi ekki við í dag, hafi þau einhvern tímann átt við. Núverandi auglýsingabann sé sömuleiðis erfitt og flókið í framkvæmd. „Í nágrannaríkum má finna mun frjálslegri lagasetningu hvað varðar auglýsingar heilbrigðisstétta og -stofnana en það sem gildir hérlendis,“ segir Ágúst. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×