Innlent

Felld úr stjórn Framsóknarkvenna

Formaður Landssambands Framsóknarkvenna, Una María Óskarsdóttir, var felld úr stjórn félags Framsóknarkvenna í Kópavogi í gær. Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi umhverfisráðherra, segir á heimasíðu sinni í dag að aðalfundur Freyju, félags Framsóknarkvenna í Kópavogi, hafi verið merkilegur fyrir þær sakir að í upphafi fundar hafi eiginkona Páls Magnússonar, sem er aðstoðarmaður iðnaðarráðherra, borið fram tillögu um að 43 konur yrðu skráðar sem nýir félagar í Freyju. Siv segir hana hafa komið með þennan lista á flokksskrifstofuna um miðjan dag í gær, sama dag og aðalfundurinn var haldinn, og að framkvæmdastjóra flokksins hafi mistekist að koma þessum nýskráningum til sitjandi stjórnar. Eiginkona Páls hafi komið á fundinn með svilkonu sinni sem er eiginkona Árna Magnússonar félagsmálaráðherra. Siv segir þetta hafa komið flatt upp á stjórn félagsins en að fundarkonur sem voru á þessum skráningarlista hafi síðan tekið þátt í að kjósa sig sjálfar inn í félagið. Siv segir lögmæti fundarins hafa verið dregið í efa en að ný stjórn hafi eigi að síður verið kjörin á fundinum. Þar bar það til tíðinda að Aðalheiður Sigursveinsdóttir, eiginkona aðstoðarmanns iðnaðarráðherra, var kosin í stjórn félagsins en Una María Óskarsdóttir, sem er formaður Landssambands Framsóknarkvenna, var felld úr stjórn. Fundurinn frestaði því, að sögn Sivjar, að kjósa fulltrúa á Flokksþingið sem haldið verður í lok febrúar og í Fulltrúaráð framsóknarfélaganna í Kópavogi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×