Innlent

Kosningin styrkir Samfylkinguna

Formaður Ungra jafnaðarmanna segir að formannskosning milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar styrki Samfylkinguna þegar fram í sækir. Flokkurinn sé stærri en þau bæði en uppgjör sé óumflýjanlegt. Hann vill að næsti varaformaður komi úr hópi unga fólksins. Kosið verður í póstkosningu milli Össurar, formanns Samfylkingarinnar, og Ingibjargar Sólrúnar fyrir landsfundinn sem nú er fyrirhugað að halda í vor. Um fjórtán þúsund manns eru skráðir meðlimir. Ljóst er af samtölum við flokksmenn að hinn harði flokkskjarni hefur hallað sér meira að Össuri en óljósara er hvernig hinn almenni flokksmaður hagar atkvæði sínu. Þótt Ingibjörg Sólrún virðist í fljótu bragði ekki hafa þann gríðarlega meðbyr sem hún hafði eftir síðustu þingkosningar eru fjórir mánuðir langur tími í pólitík. Andrés Jónsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, segir of snemmt að draga neinar ályktanir en þetta óumflýjanlega uppgjör hafi legið þungt á flokksmönnum og því sé nauðsynlegt að klára málið sem fyrst. Hann segir líklegt að það sem tapar verði ekki varaformaður flokksins þannig að eftirleikurinn kalli ekki á náið samstarf þeirra í milli. Tíminn verði hins vegar að leiða í ljós hvort þeirra verði ofan á. Andrés segir Samfylkinguna vera að styrkjast og hún þoli því svona slag. Flokkurinn sé stór og í honum sé fólk sem kunni að vinna saman. Að sögn Andrésar er ætlunin að fara aldrei í þá skiptingu sem verið hafi í vinstriflokkunum í gamla daga. Andrés segist ekki ætla að gefa upp sína afstöðu til hvort þeirra hann kýs en vill að næsti varaformaður flokksins komi úr röðum unga fólksins. Hann segir mikið af hæfileikaríku fólki í þeirra röðum og skorar á unga flokksmenn að bjóða sig fram.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×