Innlent

Sölu Símans verður að vanda

Sölu Símans þarf að undirbúa vel svo ekki verði hlaupið til og fyrirtækið selt einhverjum. Það þarf að passa upp á að allir standi og sitji við sama borð þegar að því kemur að selja fyrirtækið," segir Jón Sveinsson, nefndarmaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Jón, sem Framsóknarflokkurinn tilnefndi í nefndina, segir engan ágreining vera innan stjórnarflokkanna um sölu Símans. Sumarleyfi hafi valdið því að vinna við einkavæðingu Símans hafi dregist. Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingar, segir að þrátt fyrir orð Jóns og annarra skorti á samkomulag stjórnarflokkanna um söluna: "Framsókn er mjög hikandi. Málið er eins og með önnur atriði á síðustu mánuðum og misserum. Ríkisstjórnin er ekki í takt í neinum stórum málum." Jóni finnst sjálfum vel koma til greina að leitað verði eftir kjölfestufjárfesti við söluna. Ekki sé skynsamlegt að selja fyrirtækið í einu lagi: "Ég held að það sé miklu hagstæðara að almenningur fái með einhverjum hætti að kaupa hlut í fyrirtækinu þó að það gerist kannski ekki núna í fyrsta áfanganum." Í samtali við Fréttablaðið í gær sagði Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, stefnt að sölu allra bréfanna til eins kaupanda. Hann átti við að stefnt yrði að því að fá kjölfestufjárfesti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×