Innlent

Fjöldi vopna óskráður

Alls eru 71 skotvopn stolið eða týnt samkvæmt upplýsingum úr skotvopnaskrá Ríkislögreglustjóra, þar af hafa sextán glatast síðan árið 2000. Samkvæmt skránni eru um 50.000 skráð skotvopn á landinu. Snorri Sigurjónsson hjá Ríkislögreglustjóra segir að allur gangur sé að því að stolin eða týnd skotvopn komi í leitirnar, en fleiri skili sér heldur en færri. Flest stolnu vopnanna eru haglabyssur en engin óhefðbundin skotvopn eins og skammbyssur eru á skrá yfir óskilamuni. Árið 2000 var hafist handa við gerð skotvopnaskrár og voru þá allar upplýsingar lögreglumdæma landsins um skráð skotvopn landsmanna samræmdar í einn gagnagrunn. Snorri segir skrána vera nokkuð áreiðanlega, en hún verði ekki fullkláruð fyrr en árið 2010 þegar leyfi fyrir öllum skotvopnum á landinu hefðu verið endurnýjuð. Í apríl síðastliðnum var fimm veiðirifflum stolið úr heimahúsi í Grindavík; fjórir þeirra fundust stuttu síðar en einn þeirra er enn ófundinn. Haustið 2003 var þremur haglabyssum og þremur rifflum stolið úr heimahúsi í Keflavík. Í desember síðastliðnum voru tvær haglabyssanna notaðar við Bónusrán í Kópavogi, en ræningjarnir vísuðu einnig á tvo riffla. Einnar haglabyssu og eins riffils er enn saknað. Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, telur að margar byssur á landinu séu óskráðar: "Óskráð vopn á landinu eru alla vega á bilinu 10-20 þúsund. Það var mikið um smygl á vopnum með skipum til landsins áður fyrr, sérstaklega á sjöunda áratugnum. Einnig var mikið um að byssur söfnuðust upp innan fjölskyldna þegar eigendurnir féllu frá því lengi vel var eftirlit með skotvopnum afar dapurt." Snorri Sigurjónsson segir ómögulegt að giska á hversu margar byssur eru óskráðar á landinu. "Það er svo sem hægt að varpa fram einhverjum tölum en það væru bara hugmyndir."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×