Innlent

Geta haft ungabörn í fangelsinu

Heimilt er að konur hafi börn að eins og hálfs árs aldri innan fangelsisveggja, segir Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur og starfsmaður Fangelsisstofnunnar. Ófrísk kona var handtekin í Leifsstöð með 5.005 E-töflur í bakpoka á föstudag. Hún verður í einangrun á Litla-Hrauni til tveggja vikna og á fjögurra til sex ára dóm yfir höfði sér verði hún sakfelld. Konan er frá Sierra Leone en með hollenskt vegabréf samkvæmt sýslumanni á Keflavíkurflugvelli. Erlendur segir að algengt sé að erlendir ríkisborgarar sem afpláni refsivist hér á landi sitji aðeins helming dómsins í stað þess að afplána tvo þriðju hluta hans eins og dæmdir landsmenn. "Það hefur verið reglan því tekið er tillit til þess að menn afpláni við miklu erfiðari aðstæður. Ættingjar eigi erfitt með að heimsækja viðkomandi og tungumálið sé erfitt," segir Erlendur. Erlendur segir að aðstæður til vistunar í eingangrun á Litla-Hrauni séu ágætar og að starfsfólk sé þjálfað til að sjá um fangana en aldrei sé gott fyrir vanfærar konur eða fólk í erfiðleikum að vera í einangrun."Það er náttúrulega ekki við sem ákveðum það heldur dómarinn sem úrskurðar í gæsluvarðhald." Erlendur segir að þegar einangruninni ljúki fari konan væntanlega í kvennafangelsið í Kópavogi. Þar njóti hún umönnunnar hjúkrunarstarfólks, fari í mæðraskoðanir og fæði á sjúkrahúsi. Hún komi síðan aftur í fangelsið þegar læknir metur að það sé í lagi."Fangelsi eru ekki byggð fyrir börn en þau mál verða bara leyst. Það eru eins manns herbergi á Kópavogsfangelsinu og það er hægt að hafa þar kornabarn. Það verður gert ef til þess kemur," segir Erlendur. Ekki er útilokað að konan afpláni í Hollandi en það þyrftu hollensk yfirvöld að samþykkja sem getur tekið langan tíma, segir Erlendur. Hann bendir á að málið sé á frumstigi og enn sé allt óljóst. "Einhverra hluta vegna valdi hún að gera þetta og slapp ekki með það. Þá tekur hún afleiðingunum af því eins og aðrir verði hún dæmd," segir Erlendur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×