Innlent

Bændur hafa áhyggjur af kálfadauða

Kálfadauði er vaxandi vandamál á íslenskum búum og hefur aukist umtalsvert allra síðustu ár. Baldur H. Benjamínsson, nautgriparæktarráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, segir það ekki hafa verið fyrr en fyrir um áratug síðan að meira fór að bera í milli í samanburði við önnur lönd. "Síðustu fimm árin hefur svo sigið dálítið á ógæfuhliðina og við vitum ekki af hverju það stafar. Þetta er svo geysilega flókið kerfi þarna að baki, það er ekkert eitt sem setur allt úr skorðum heldur eru þetta samverkandi þættir," segir Baldur. Í máli hans kom fram að í fyrra hafi að jafnaði um 15 prósent nautkálfa fæðst dauðir og um 12 prósent kvígukálfa. "En svo er þetta mjög breytilegt eftir búum. Til eru bú þar sem vanhöld eru nánast engin og svo allt upp í 20 til 30 prósent vanhöld annars staðar." Baldur segir menn velta fyrir sér mögulegum ástæðum þessarar þróunar, búið sé að útiloka sjúkdóma og því horft til umhverfisþátta svo sem fóðrunar annarra þátta. "Svo vitum við líka að skyldleikaræktun í stofninum eykst frá ári til árs og hefur örugglega einhver neikvæð áhrif. Hún eykst hins vegar mjög hægt og getur ekki skýrt allan þennan breytileika," segir Baldur en bætir við að í Danmörku hafi bændur komist fyrir sambærileg vandamál með kynbótum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×