Innlent

Rauði krossinn opnar söfnunarsíma

Rauði kross Íslands hefur opnað söfnunarsímann 907 2020 til stuðnings hjálparstarfi í Beslan í Rússlandi. Með því að hringja í númerið færast 1.000 krónur á símreikninginn. Féð verður notað til að styðja þá sem lentu í gíslatökunni í Beslan og aðstandendur þeirra, meðal annars með sálrænum stuðningi, sjúkraþjálfun og heimahlynningu. Þá ákvað Rauði kross Íslands í dag að senda eina milljón króna til stuðnings hjálparstarfi rússneska Rauða krossins í Beslan. Alþjóða Rauði krossinn fór fram á það við félagið í dag að það útvegaði sérfræðing í áfallahjálp til starfa í Beslan og verið er að kanna möguleika á því. Í neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins, fyrir hönd hins rússneska, er beðið um alls 50 milljónir króna til að hjálpa alls um 2000 manns. Féð verður notað til að halda áfram að veita þeim sem lentu í gíslatökunni og aðstandendum þeirra margvíslegan stuðning í að minnsta kosti tólf mánuði. Að auki er í undirbúningi að veita þeim sem urðu fyrir líkamstjóni sjúkraþjálfun og heimahlynningu, starfrækja félagsmiðstöð fyrir ungmenni í Beslan og greiða fyrir dvöl á heilsuhæli fyrir fjölskyldur sem eiga um sárt að binda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×