Innlent

Átta missa vinnu við hagræðingu

Öllum starfsmönnum Búrfells- og Hrauneyjarfossstöðvar hefur verið sagt upp störfum vegna sameiningar starfsstöðvanna. Átta hætta og gera starfslokasamning en öðrum hefur verið boðið að ráða sig aftur til starfa undir breyttum starfsskilyrðum. Már Guðnason, formaður Verkalýðsfélags Suðurlands, er ósáttur við vinnubrögð Landsvirkjunar. Hann segir uppsagnirnar hafa komið starfsmönnunum á óvart því sagt hafi verið að engum yrði sagt upp við breytingarnar, síðast fyrir tveimur mánuðum. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir breytingarnar hafa verið nauðsynlegar. Þær taki mið af tækniþróun síðustu ára: "Við teljum að vandað hafi verið til hvernig þetta mætti sem best ganga og höfum lýst því yfir að við munum gera hvað við getum til að hjálpa einstaklingum að fá önnur störf." Helgi Laxdal, formaður Vélstjórafélags Íslands, segir níu vélfræðinga í hópi starfsmannanna sem voru endurráðnir: "Í heildina tekið vil ég meina að framkoma Landsvirkjunar hafi verið í lagi."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×