Innlent

Dagmömmur ósáttar

Ég hef fjórum sinnum hringt og beðið um að þetta verði lagað og alltaf segja menn að þeir komi eins og skot, en ekkert gerist," segir Linda Björk Friðriksdóttir, dagmamma í Bústaðahverfi í Reykjavík. Henni og öðrum dagmömmum í hverfinu blöskrar bág aðstaða á leikvöllum í hverfinu og segja leiktæki vera almennt sjúskuð og jafnvel slysagildrur. "Það er bara möl eftir í sandkössum og í köstulunum er svo breitt bil milli spýtna í handriðunum að það er hætt við að börnin detti á milli." Linda segist ekki vita til þess að börn hafi fallið á milli handriðanna, enda sé eftirlit með þeim gott en oft mátt litlu muna. Leikvöllurinn við Bústaðaveg 103 er mest notaður en Linda telur að tugir barna séu þar við leik daglega. Gatnamálastofa hefur leikvellina á sinni könnu en sérstakar hverfisstöðvar sjá um viðhald á þeim. Hverfisstöðin á Miklatúni sér um eftirlit í Bústaðahverfi. Þorgrímur Hallgrímsson verkstjóri segir að kastalarnir á leikvöllunum séu gerðir eftir samþykktum gæðastöðlum Evrópusambandsins. "Málið er að börnin sem dagmömmurnar koma með eru mun minni en staðlarnir gera ráð fyrir. Á leikskólunum er börnum á þessum aldri ekki hleypt í kastalana." Þorgrímur segir að ef bilin í handriðunum séu þrengd geti það skapað hættu fyrir eldri börn sem leika sér á völlunum, sem eru oft án eftirlits fullorðinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×