Innlent

Milljóna-Svíinn dæmdur

Sænski ferðalangurinn sem handtekinn var í Leifsstöð 21. maí síðastliðinn með tvær milljónir króna í reiðufé í vösunum var dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar í gær. Hann hafði játað á sig fjársvik við yfirheyrslu og birti sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli honum ákæru í gær. Síðan dæmdi Héraðsdómur Reykjaness hann í fjögurra mánaða fangelsisvist, þar af þrjá mánuði skilorðsbundna. Svíinn var síðan fluttur á Litla-Hraun, þar sem hann afplánar nú. Þetta óvenjulega mál tók á sig endanlega mynd í fyrradag, þegar íslenskur karlmaður var kallaður til yfirheyrslu hjá sýslumannsembættinu sem vitni. Samkvæmt upplýsingum blaðsins var það sá maður sem Svíinn játaði fyrir Héraðsdómi í gær að hafa svikið milljónirnar tvær af. Ekki er með öllu ljóst hvernig viðskipti mannanna höfðu verið þar sem framburður þeirra var ekki samhljóða við yfirheyrslur. Ljóst er þó að Svíinn hafði með blekkingum tilgreinda upphæð af Íslendingnum sem hann hugðist síðan taka með sér úr landi. Þá er ekki með öllu ljóst hvernig Svíinn hugðist nýta sér fjármunina, þegar hann væri kominn á erlenda grund, en talið líklegt að hann hafi verið að flýta sér úr landi og haldið að hann gæti skipt milljónunum í erlenda mynt þar. Maðurinn hafði dvalið hér á landi síðan 6. apríl. Hann hafði gist á ýmsum gistiheimilum, bæði í Reykjavík og Kópavogi. Þegar á dvölina leið leigði hann sér húsnæði sem hann bjó í þar til hann hugðist yfirgefa landið. Hann er fæddur í Tyrklandi en er með sænskan ríkisborgararétt. Hann hefur lengi búið í Svíþjóð og Noregi og hefur komist í kast við lögin erlendis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×