Innlent

Enginn árangur af starfi Hafró

"Það er hreint með ólíkindum að eftir 20 ára veiðistjórnun á þorski skuli veiðiheimildir enn vera skertar," segir Grétar Mar Jónsson, skipstjóri og varaþingmaður Frjálslynda flokksins. Hann er æfur yfir tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir næsta fiskveiðiár og furðar sig á því sem hann segir vera stórundarlegar ákvarðanir hennar. "Árangurinn af störfum Hafró er enginn eða þaðan af verra. Áður en kvótakerfið var tekið upp veiddust hér við land 360 þúsund tonn af þorski árlega. Þetta áratugastarf skilar okkur í dag með herkjum 205 þúsund tonnum. Það þarf ekki að hafa mikla skynsemi til að sjá að þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera." Grétar segir dapurt til þess að vita að hinir lærðu menn innan Hafró skuli vera yfir það hafnir að þiggja ráð og hugmyndir frá þeim aðilum sem sækja sjóinn og þekkja. "Þeir hugsa ekkert um hvaða veiðarfæri eru notuð við veiðar og hlusta ekkert á ráð okkar sjómanna og það er mjög miður. Dæmi um þetta er skötuselurinn sem er að koma hingað vegna hlýnunar sjávar. Það fyrsta sem menn gera án þess að nokkur veiðireynsla sé til staðar er að setja á hann kvóta. Þetta er með afbrigðum fáránlegt viðhorf."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×