Innlent

Eltur á 200 km hraða

Lögreglan í Kópavogi og Hafnarfirði veitti manni á fimmtugsaldri eftirför suður eftir Reykjanesbraut í fyrrinótt. Maðurinn sinnti engum stöðvunarmerkjum og ók á allt að 200 kílómetra hraða. Til að stöðva ferðir mannsins þurfti að aka einum lögreglubílnum utan í bíl mannsins á Strandarheiði. Að sögn lögregluvarðstjóra í Kópavogi varð lögreglan fyrst vör við ferðir mannsins á Reykjanesbraut á móts við Nýbýlaveg í Kópavogi. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og hófst þá eftirförin. Afturhjólbarði á bíl mannsins sprakk án þess að það hefði áhrif á ofsaaksturinn. Bíll hans var framdrifinn og virtist hann geta haldið áfram þrátt fyrir sprungið afturdekk. Maðurinn lagði marga í hættu með ofsaakstri sínum. Meðal annars tók maðurinn fram úr farþegarútu og þeyttist hlutur úr hjólabúnaði bílsins í framrúðu rútunnar. Skammt frá Strandarheiði tókst að stöðva manninn með því að lögreglubíl var ekið utan í bifreið hans. Á endanum hafnaði bíll mannsins utan vegar. Að sögn lögreglu var maðurinn hvorki undir áhrifum áfengis né lyfja en að lokinni eftirför var hann færður í fangageymslur lögreglunnar í Kópavogi. Manninum var sleppt að loknum yfirheyrslum í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×