Innlent

Stuttur kveikur í húsráðanda

"Við hófum umræður um þessi mál og það er ljóst að það er afskaplega stuttur kveikurinn í þeim sem ráða ríkjum í þessu húsi hér," sagði Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, eftir að samráðsfundi formanna ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu um þjóðaratkvæðagreiðslu var slitið í gær. Ögmundur sagði það virðast vera sýndarmennsku af hálfu formanna ríkisstjórnarflokkanna að ganga til einhvers konar samráðs við stjórnarandstöðuna. Össur Skarphéðinsson sagði allt annan brag hafa verið á því sem Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra hafði fram að færa á fundinum. Hann segir forsætisráðherra hafa slitið fundinum þegar stjórnarandstaðan hóf máls á því hvort virða ætti stjórnarskrána varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvort það ætti að takamarka hana með einhverjum hætti. "Það var rætt um það á fundinum að þing yrði kallað saman í byrjun júlí og var sæmileg samstaða um það. Þá vildu menn ræða nánar um útfærslu og aðkomu að þessu máli. En þegar við settum fram okkar sjónarmið um takmörkun á stjórnarskránni sögðu menn að ekki væri ástæða til að ræða þetta frekar ef við ætluðum að fara að setja einhver skilyrði," segir Ögmundur. "Það er mjög óvanalegt að málin þróist með þessum hætti og að forsætisráðherra skuli ekki geta sætt sig við það að menn segi sínar skoðanir án þess að rjúka upp og slíta fundi. Við vitum hvort það verður annar fundur en ég geri ekki ráð fyrir því miðað við viðbrögð forsætisráðherra" sagði Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×