Innlent

Ekki ætlunin að ræða frumvarp

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að nefndin sem skipuð var um löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslu muni starfa fullkomlega sjálfstætt. Ríkisstjórnin muni ekki leggja fram neinar tillögur við nefndina og ekki funda með henni fyrr en niðurstöður hennar liggi fyrir. Aðspurður um hvers vegna sérfræðingar á sviði kosningalöggjafar hefðu ekki verið valdir í nefndina segir Halldór að það hafi verið galli hve margir væru búnir að tjá sig opinberlega um málið. "Við teljum það óheppilegt að lögfróðir aðilar sem hafa tjáð sig opinberlega um þetta komi að þessu. Farið var yfir ýmis nöfn, margir eru fjarverandi og þetta var niðurstaðan. Það verður að hafa það í huga að ríkisstjórnin hefur frumkvæðisskyldu við undirbúning löggjafar sem þessar. Þeirri frumkvæðisskyldu ber okkur að sinna," segir Halldór. Spurður um meint ósætti milli formanna stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar á fundinum í gær segir Halldór að rætt hafi verið það sem ætlunin hafi verið að ræða. Í bréfi frá þeim hafi verið óskað eftir að rætt yrði um hvenær Alþingi verður kvatt saman til að setja lög um framkvæmd og tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og hvernig það þinghald verði undirbúið. Það hafi verið gert. "Síðan vildu þeir fara að ræða efnisinnihald væntanlegs frumvarps. Við höfum ekki tekið neina afstöðu til þess. Við teljum að það sé ekki hægt fyrr en sú nefnd sem hefur verið skipuð hefur skilað okkur áliti um það. Málið er afskaplega flókið og ég hef enga fyrirfram skoðun á því. Mér finnst að formenn stjórnarandstöðuflokkanna eigi ekki að hafa það heldur," segir Halldór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×