Innlent

Jón byrjar á Símanum

Jón Sveinsson verður næsti formaður einkavæðingarnefndar. Stærsta verkefni hans verður að selja Símann. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa sett það skilyrði fyrir sölunni að lokið verði við uppbyggingu á dreifikerfi fyrirtækisins. Dreifikerfi er hins vegar loðið hugtak og ekki á hreinu við hvað er átt. Halldór Ásgrímsson, verðandi forsætisráðherra, segist gera ráð fyrir því að Jón Sveinsson verði formaður Einkavæðingarnefndar, enda hafi hann starfað í nefndinni um skeið. Hann segir að stærsta verkefni nefndarinnar verði Landssíminn. Halldór segir af og frá að sala símans hafi verið sett á ís. Öðru nær þurfi að flýta því verkefni og hann segist ætla að setja eins mikinn kraft í verkefnið á næstunni og mögulegt er. Þingmenn Framsóknar hafa lýst því yfir síðustu daga að ljúka verði uppbyggingu dreifikerfis símans áður en hann verði seldur. Þetta er afar óljóst orðalag svo ekki sé meira sagt, því dreifikerfi símans er flókið og margslungið fyrirbrigði. Því má skipta í að minnsta kosti 6 hluta. Fyrst er að nefna almenna símkerfið, sem liggur um allt land. Þá er það gsm kerfið sem nær til 98 prósenta landsins og nmt farsímakerfið sem nær til 99 prósenta landsins. Þetta eru símkerfin. Þá komum við að örbylgjunni og ljósleiðaranum. Ljósleiðarinn liggur um allt landið, en ljósleiðaranetið nær nú til 35 þúsunda heimila, aðallega á höfuðborgarsvæðinu og á Húsavík, en alls eru tæplega 100.000 heimili í landinu. Þá er komið að ISDN kerfinu, sem eru 128 kílóbæta tengingar. Síminn hefur þá skyldu að koma ISDN kerfinu á öll heimili landsins. Enn vantar um 65 heimili til að það sé uppfyllt og er kostnaður við það áætlaður að hámarki 130 milljónir króna. Það ætti því að vera auðvelt að uppfylla það skilyrði, ef það er það sem Framsóknarmenn eiga við með uppbyggingu dreifikerfisins. Eigi þeir hins vegar við að ljúka þurfi uppbyggingu ADSL kerfisins þyngist róðurinn. Það kerfi nær til 92ja prósenta þjóðarinnar, og er tengt við rúmlega 40 símstöðvar. Stjórnarformaður símans segir að tengja þurfi um 140 símstöðvar til að tengja þau 8 prósent sem upp á vantar, og hefur forstjórinn sagt að það kosti svipað og kostnaðurinn við 92 prósentin sem þegar eru tengd. Ljóst er að sá kostnaður mundi hlaupa á milljörðum króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×