Innlent

Fyrrverandi forstjóri SÍF sýknaður

Gunnar Örn Kristjánsson, fyrrverandi forstjóri SÍF, var í dag sýknaður af öllum ákærum um brot í starfi sem endurskoðandi Tryggingarsjóðs lækna á síðasta áratug.  Gunnar Örn var ákærður fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um starfsemi lífeyrissjóða, með því að hafa á árunum 1993-2001 vanrækt skyldur sínar sem löggiltur endurskoðandi ársreikninga Tryggingarsjóðsins. Skilanefnd Tryggingarsjóðsins krafðist þess að Gunnar Örn skyldi dæmdur til að greiða sjóðnum rúmlega 47,5 milljónir króna. Hann var sakaður um að hafa áritað ársreikningana án fyrirvara og ekki hagað endurskoðunarvinnu sinni í samræmi við góða endurskoðunarvenju. Ríkislögreglustjóri krafðist þess að Gunnar Örn yrði dæmdur til refsingar og ennfremur sviptur réttindum til starfa sem löggiltur endurskoðandi. Gunnar Örn neitaði öllum sakargiftum og komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að færa sönnur á sök hans. Hann var því alfarið sýknaður og bótakröfu Skilanefndar vísað frá dómi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×