Innlent

Þurfum undanþágu

Forsætisráðherra segir að Íslendingar þurfi frekari undanþágu frá Kyoto-bókuninni til að geta ráðist í frekari stóriðjuframkvæmdir. Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands segir það geta orðið torsótt vegna andstöðu þróunarríkjanna. Undanþága Íslands frá Kyoto-bókuninni heimilar umframlosun 1600 þúsund tonna koltvísýrings og gildir hún til 2012. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í gær að Íslendingar þyrftu meiri frávik en treystir sér ekki til að segja hversu mikil. Halldór segir að verið sé að tala um margar framkvæmdir og því sé ljóst að meira svigrúm þurfi til að nýta hreina íslenska orkugjafa. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir erfitt að spá fyrir um hvort Ísland fái frekari undanþágur. Hann telur að þriðja heims ríkin hafi ekki skilning á að ríkt land eins og Ísland þurfi á sérstöðu að halda. Forsætisráðherra segir að án núgildandi undanþágu hefði ekki verið hægt að stækka álverksmiðjuna í Straumsvík, Járnblendiverksmiðjuna eða byggja Norðurál. Árni Finnsson segir þetta rangt hjá Halldóri. Hann segir að búið hafi verið að ákveða allar framkvæmdirnar áður en Kyoto-sáttmálinn komst á koppinn. Forsætisráðherra segir þessa fullyrðingu Árna ekki rétta. Hann segir ekkert af því sem nú standi til verið farið af stað þegar Kyoto-bókunin var gerð. Hann segir að ef Íslendingar hefðu ekki fengið frávik frá Kyoto bókuninni þá hefði annað hvort orðið að hætta við þessar framkvæmdir eða standa utan við Kyoto bókunina. Það hefði hins vegar verið mjög erfitt og menn hafi viljað forðast það í lengstu lög.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×