Innlent

Færri stefna á kennslu

Færri stúdentar Kennaraháskóla Íslands huga að kennslu við útskrift næsta haust en fyrir verkfall grunnskólakennara, segir Sigurður Grétar Ólafsson formaður stúdentaráðs KHÍ. "Ég tel að stór hluti nemenda sem í upphafi ætlaði í kennslu strax að loknu námi sé hættur við. Ég er einn þeirra," segir Sigurður: "Þegar fólk skráði sig í nám á sínum tíma vissi það að samningarnir yrðu lausir á haustmánuðum þessa árs. Það átti von á að launin yrðu leiðrétt en það gekk ekki eftir." Sigurður segir stöðu stúdenta ásættanlega miðað við þá miklu röskun sem hafi orðið á haustönninni en þá var kennslu stúdenta í grunnskólum frestað vegna verkfalls grunnskólakennara. "Eins og staðan er núna verða námslánin ekki greidd út seinna en í byrjun febrúar því þá ljúkum við vettvangsnáminu. Röskunin er því aðeins tvær til þrjár vikur," segir Sigurður. Áfanginn teljist til náms á haustmisseri þó honum ljúki ekki fyrr en á vorönn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×