Innlent

Engin viðbrögð frá bönkunum

Engin viðbrögð hafa komið frá stóru viðskiptabönkunum vegna vaxtalækkunar Íbúðalánasjóðs. Vextir sjóðsins eru nú 4,15%, en bankarnir bjóða 4,2%. Útboð húsbréfa fór fram á föstdaginn, en alls tók Íbúðalánasjóður við tilboðum fyrir 8 milljarða króna að nafnvirði. Stjórn sjóðsins ákvað því að útlánsvextir á öðrum flokkum en leiguíbúðalánum skuli frá og með deginum í dag vera 4,15%. Þá geta viðskiptavinir sjóðsins sem ekki hafa gengið frá afsali, en hafa fengið afgreitt eldra hámarkslán, fengið mismun fyrri hámarksláns og núverandi hámarkslán afgreiddan, sé veðrými á viðkomandi íbúð. Hámarkslán var 9,2 milljónir, en er nú 11,5. Viðskiptabankarnir hafa að undanförnu boðið 4,2% vexti á sínum íbúðalánum og er Íbúðalánasjóður því kominn undir það. Engar vaxtabreytingar voru tilkynntar af viðskiptabönkunum í dag, en hjá þeim fengust þau svör að menn væru að skoða málið, en engar ákvarðanir lægju fyrir um vaxtalækkun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×