Innlent

Þrýstingurinn eykst

Enn eykst þrýstingurinn á samninganefndir sveitarfélaga og kennara um að þær nái samningum. Kennarar búast við fjöldauppsögnum, komi til þess að gerðardómur ákvarði kaup þeirra og kjör. Af viðtölum við foreldra og börn má ráða að mikil ólga er í þjóðfélaginu vegna ástandsins í grunnskólum. Í morgun gætti þó fremur reiði en skilnings og undrunar, eins og í gær. Ýmist skeytir fólk skapi sínu á sveitarfélögunum, ríkisvaldinu, eða kennurum í veikindaorlofi. Þeir síðastnefndu segjast skilja þessa reiði, en eru sjálfir sárreiðir. Þá helst vegna ákvæða í lögum sem sett voru vegna kennaradeilunnar og áttu að koma skólastarfi aftur í eðlilegt horf. Ákvæðin lúta að þeim vinnureglum sem gerðardómi er settur, komi til þess að hann ákvarði kjör kennara. Kennarar sem rætt var við í dag segjast telja sig hafa verið niðurlægða, enda hafi ríkisvaldið ákveðið að setja deiluna í gerðardóm, sem eigi hvoru tveggja í senn að miða kennara við sambærilegar stéttir, sem og að passa að rugga ekki þjóðarskútunni. Gerðardómsákvæði laganna tekur gildi á laugardag en fram að þeim tíma sitja fulltrúar sveitarfélaga og kennara við samningaborðið og reyna að ná sáttum. Kennarar segja að þeir myndu mæta í skólana ef strax yrði gengið að kröfum þeirra um eingreiðslu, 5,5% launahækkun og enga skerðingu sumarfrís og desemberuppbótar. Samninganefndirnar hafa setið við hjá Ríkissáttasemjara í allan dag og voru enn að nú rétt fyrir fréttir. Nefndirnar hafa setið sín í hvoru lagi og lítið ræðst við, en full ástæða er til að vona að þeim miði vel áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×