Innlent

Vill hærri tekjur af álveri

Tekjur Hafnarfjarðarbæjar myndu næstum tvöfaldast ef álver Alcan í Straumsvík greiddi fasteignagjöld og lóðaleigu í stað framleiðslugjalds eins og það gerir nú. Áætlaðar greiðslur Alcan til bæjarins á þessu ári eru 93 milljónir króna en yrðu 174 milljónir með breyttum skattgreiðslum. Alcan hefur sjálft óskað eftir því við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið að komast inn í íslenskt skattaumhverfi. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sendi ráðuneytinu bréf þar sem hann óskaði eftir því að orðið yrði við óskum fyrirtækisins, enda væru miklir hagsmunir í húfi fyrir sveitarfélagið. Lúðvík Geirsson segist ósáttur við að bærinn njóti ekki sömu stöðu og önnur sveitarfélög þar sem sambærilegur iðnaður og rekstur fer fram. Álver fyrir austan og í Hvalfirði falli bæði undir íslenskt skattaumhverfi. Það sé eingöngu álverið í Straumsvík sem greiðir framleiðslugjöld frá gamalli tíð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×