Innlent

Brunnlokunum bísað

Gripdeildir af óvenjulegu tagi gera Bretum nú lífið leitt en þjófnaður á járnsteyptum brunnlokum hefur færst þar mikið í vöxt að undanförnu. Rétt eins og hérlendis eru brunnarnir ofan í götum og strætum og er einfalt mál að fjarlægja lokin á þeim þótt þung séu. Breska tímaritið The Economist segir verðhækkanir á málmum til bræðslu orsök þessara þjófnaða en algengt er að þjófarnir selji hvert lok á 5-7 pund, sem jafngildir um 700-1000 krónum. Því þarf ekki að stela mörgum lokum til að fá bærilegan ágóða upp úr krafsinu. Lok af eldri gerð eru vinsælli en hin nýrri þar sem þau eru þyngri. Tjónið sem samfélagið verður fyrir vegna þjófnaðanna er umtalsvert. Í Newham-hverfi í Lundúnum hefur 260 lokum verið stolið á undanförnum vikum, að verðmæti 60.000 pund, eða 7,5 milljónir króna. Til allrar hamingju er ekki vitað um slys á fólki sem hefur hrapað ofan í óvarða brunnana. Ýmis ráð hafa verið nefnd til að sporna við brunnlokaþjófnuðum, til dæmis að festa lokin með einhvers konar hjörum eða að upp verði komið eftirlitsmyndavélum í námunda við götubrunna. Að sögn Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns í Reykjavík, er þjófnaður á brunnlokum ekki ennþá teljandi vandamál á Íslandi. "Það er ekki mikill áhugi á þeim í krimmaheiminum hér," segir hann. Brunnlok af algengri tegund kostar um 15.000 krónur en íslenskar málmbræðslur veita lokum frá almenningi ekki móttöku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×