Innlent

Ætla ekki að mæta

Óvíst er með hvaða hætti skólastarf í grunnskólum landsins verður á morgun. Búast má við að fjölmargir kennarar tilkynni veikindi í fyrramálið. Kennarar í Keflavík ætla að hitta prest í Keflavíkurkirkju í fyrramálið, biðja saman og fá hjá honum áfallahjálp. Það er ekki ofmælt að gremjan sýður og bullar í grunnskólakennurum um allt land. Þeim er samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í gær og staðfest síðar sama dag af forseta Íslands gert að mæta til vinnu sinnar á morgun og vinna samkvæmt þeim launum sem gerðardómur úrskurðar þeim síðar í vetur, það er ef ekki tekst að semja fyrir næsta laugardag. Háværar raddir heyrðust þegar í gær um að kennarar ætluðu sér að sitja heima á morgun. Samkvæmt samtölum sem fréttastofa hefur átt við trúnaðarmenn kennara um helgina má búast við að margir þeirra tilkynni veikindi á morgun, og eins og einn trúnaðarmaður sagði við fréttamann: það eru engar ýkjur, við þjáumst orðið af þunglyndi eftir atburði síðustu daga. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að í Álftamýrarskóla ætli kennarar að mæta í skólann, en sitja með hendur í skauti. Þá hafa kennarar í Keflavík beðið séra Sigfús Baldvin Ingvason um að halda bænastund í Keflavíkurkirkju í fyrramálið klukkan kortér fyrir átta, áður en þeir halda til kennslu. Séra Sigfús sagði í samtali við fréttastofu að sér hafi verið ljúft og skylt að verða við þessari beiðni kennara. Hann muni í fyrramálið kveikja ljós í kirkjunni, biðja með kennurum og veita þeim sem þess þurfa áfallahjálp og að athöfninni ljúki um klukkan átta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×