Innlent

Lúðvík ásakaður um aðför og svik

Vestmannaeyjalistinn hefur slitið samstarfi sínu við Framsóknarflokkinn og tekið upp meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Oddviti Framsóknarmanna fer hörðum orðum um Lúðvík Bergvinsson, alþingismann. Vestmannaeyjalistinn og Framsóknarflokkurinn mynduðu meirihluta í mars í fyrra eftir að meirihlutasamstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins sprakk. Önnur sprenging nú, sem varð að sögn Lúðvíks Bergvinssonar, vegna trúnaðarbrests á milli Framsóknar og Vestmannaeyjalistans, hefur nú leitt Vestmannaeyjalistann og Sjálfstæðismenn í eina sæng. Þar með hafa öll meirihlutamynstur verið reynd í Eyjum á einu kjörtímabili. Nú eru 6 í meirihluta gegn einum Framsóknarmanni, Andrési Sigmundssyni. Hann sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í dag þar sem hann segir Lúðvík hafa verið ódreng undir lok samstarfsins. Hann segir Lúðvík hafa reynt að sverta mannorð sitt, beitt sig bolabrögðum og ósiðlegum aðferðum sem séu á mörkum hins löglega og að hann sakar hann um að hafa undirbúið vandlega aðför að sér til að leiða Sjálfstæðisflokkinn enn á ný til valda. Lúðvik Bergvinsson vísaði ummælum Andrésar á bug í dag þegar fréttastofa hafði samband við hann en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um þær. Aðrir bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans segjast í yfirlýsingum harma ósannar og ósmekklegar ásakanir sem Andrés ber á Lúðvík og segja þær enga stoð eiga sér í raunveruleikanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×