Innlent

Óánægja með dragnótina

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur samþykkt að fara þess á leit við sjávarútvegsráðuneytið að veiðar dragnótabáta yfir 15 metra stærð verði bannaðar í Norðfjarðarflóa, Norðfirði, Hellisfirði, Viðfirði, Sandvík, Vöðlavík, Reyðarfirði og Eskifirði. Á Norðfirði er mikil óánægja meðal smábátasjómanna vegna veiða dragnótabáta alveg upp í landsteina og þá sérstaklega vegna komu stærri báta annars staðar að. Eigendur smærri báta telja stórlega að sér vegið og kölluðu því eftir aðgerðum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Í greinargerð með ályktun bæjarstjórnarinnar kemur fram að til þessa hafi verið tiltölulega góð sátt um dragnótaveiðar á Austfjörðum sem stundaðar hafi verið af frekar litlum bátum. "Nú í haust hefur ástandið breyst og stórir bátar hafa verið að veiðum hér í fjörðum og af því hefur skapast mikil óánægja," segir þar. Einn afkastamesti báturinn sem veiðarnar stundar um þessar mundir er Bjarmi SU, 222 tonn, skráður á Eskifirði en útgerðin á Breiðdalsvík. Eigandi er Tálkni hf. á Tálknafirði. Yfirleitt fer allur afli dragnótaveiðanna til útflutnings.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×