Innlent

Gríðarlegar loftslagsbreytingar

Norðurheimsskautsísinn bráðnar hratt með ógnvænlegum afleiðingum fyrir íbúa norðurhvels jarðar. Hitastig á þessum slóðum hefur hækkað tvisvar sinnum meira en annars staðar og er meginástæðan mengun af mannavöldum. Grípa verður til aðgerða þegar í stað, eigi það ekki að verða um seinan. Fjöldi vísindamanna hefur sótt ráðstefnu Norðurheimskautsráðsins hér á landi í vikunni, þar sem meðal annars voru kynntar niðurstöður rannsókna sem um þrjúhundruð vísindamenn hafa komið að á síðustu fjórum árum. Niðurstöðurnar eru sláandi: hitastigið á norðurslóðum hækkar helmingi meira en annars staðar, og gróðurhúsaáhrifin fara vaxandi með þeim afleiðingum að enn mun hitna. Robert Correll, stjórnandi rannsóknarinnar, segir að yfirborð sjávar muni hækka meira á næstu öld en þekkst hafi á tímum mannvistar. Hann segir hækkunina geta numið meira en einum metra á næstu öld. Útblástur kólmónoxíðs er meginástæða þessa, og vísindamennirnir segja nauðsynlegt að draga þegar í stað úr útblástri þess þar sem það taki drjúgan tíma að endurvinna og hreinsa upp það efni sem þegar er í andrúmsloftinu. Því hefur verið haldið fram að nátturulegar sveiflur hafi jafnmikil áhrif og gróðurhúsalofttegundir. Robert segir að vissulega hafi verið heitara á jörðinni áður en mennirnir byggðu hana, en að á síðustu 400 þúsund árum hafi aldrei sést jafnmiklar breytingar og orðið hafi á síðustu 150 árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×