Innlent

Fullt samráð verður haft

Nýr yfirmaður Varnarliðsins segir að allar breytingar á starfseminni á Keflavíkurflugvelli verði gerðar í samráði við íslensk yfirvöld. Samdráttur í starfsemi varnarliðsins hér á landi tengist breytingum á skipan Bandaríkjaflota í Evrópu og er einnig í takti við minnkandi umsvif á Keflavíkurflugvelli. Að venju er sérstakt yfirbragð þegar yfirmannaskipti fara fram á Keflavíkurflugvelli. Nýr yfirmaður varnarliðsins er Robert S. McCormick, ofursti en hann hefur verið aðstoðaryfirmaður varnarliðsins síðan í júlí sl. Hann kemur úr háloftunum en hann starfaði m.a. í sprengjuflugflotanum og í aðalstöðvum flughersins í Washington. Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi varnarliðsins, segir ákveðin tímamót í gangi, enda taki nú við ofursti, sem sé næsta tignarstaða fyrir neðan flotaforingja, sem áður hafi gegnt starfinu. Hann segir þó að ekki sé um veruleg tímamót að ræða að öðru leyti. Hann segir ástæðu breytingarinnar fyrst og fremst þá að Bandaríkjamenn þurfi á flotaforingjum að halda annars staðar. Charles F. Wald, hershöfðingi og aðstoðaryfirmaður Evrópuherstjórnar bandaríkjahers var við athöfnina í morgun og sagði hann m.a. að Bandaríkjamenn mætu samstarfið við Íslendinga mikils. Allar breytingar á starfseminni á Keflavíkurflugvelli væru gerðar í nánu samstarfi við íslensk yfirvöld. Undir þetta tók nýr yfirmaður varnarliðsins, Robert McCormick. Hann segir að þegar stjórnmálamenn í Bandaríkjunum komi til þeirra skilaboðum um hvað skuli gera, komi þeir þeim skilaboðum áleiðis til Íslands. Þannig viti fólk ávallt hvað muni gerast næst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×