Innlent

Mikil óánægja með frumvarpið

Talsmenn kennara og sveitarfélaga virðast jafnóánægðir með frumvarp ríkisstjórnarinnar. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samninganefndar sveitarfélaga, telur frumvarpið hins vegar auka líkur á að samningar takist á næstu vikum. Hann segir ljóst að sveitarfélögin vildu ekki afskipti ríkisins af deilunni og heldur ekki að henni yrði vísað í gerðardóm. Birgir segir að þegar kröfur séu algerlega óraunhæfar geti atvinnurekendur ekki skrifað innistæðulausar ávísanir. Birgir Björn telur frumvarpið skapa nýjar og betri forsendur fyrir deilendur til að ná samningum fyrir 15. desember þegar gerðardómur verður skipaður. Hann segir að um sé að ræða skilaboð frá samfélaginu um það að hvaða ramma sveitarfélög og kennarar þurfi að laga sig. Finnbogi Sigurðsson, formaður félags grunnskólakennara, hefur lýst því að gerðardómur sé illskásta leiðin. Hann er þó afar ósáttur við frumvarpið og þann starfs- og tímaramma sem gerðardómi er gefinn. Finnbogi segir að sér finnist tíminn sem gerðardómur hafi til umhugsunar sé allt of langur og tíminn þar til hann taki til starfa sömuleiðis. Það séu hrein mistök af hálfu Alþingis að ræða málið á þessum nótum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×