Innlent

Láta eigið fé duga til framfærslu

Fimmtán hundruð manns sem náð hafa 67 ára aldri hafa aldrei sótt um ellilífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins. Í þeim hópi eru tveir sem verða aldargamlir á árinu. Ástæður þessa eru helst þær að viðkomandi eigi nóg til hnífs og skeiðar en ellilífeyrir er tekjutengdur og skerðist þegar fólk hefur 143 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði og/eða fjármagnstekjur upp á 286 þúsund. Til fjármagnstekna teljast vextir af bankainnistæðum og arður af hluta- og verðbréfum sem og hagnaður af sölu þeirra. Greiðslur úr lífeyrissjóðum skerða ekki ellilífeyrinn, sama hversu háar þær kunna að vera. Á sjötta hundrað manns 67 ára og eldri fá ekki greiddan ellilífeyri vegna of hárra tekna. Fullur ellilífeyrir nemur 101 þúsund krónum á mánuði. Það eru ein milljón, tvöhundruð og tólf þúsund krónur á ári. Liðlega 30 þúsund manns fá greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×